Jósúabók. Chapter 4

1 Er allt fólkið var komið yfir um Jórdan, mælti Drottinn við Jósúa á þessa leið:
2 'Veljið yður tólf menn af lýðnum, einn mann af ættkvísl hverri,
3 og bjóðið þeim og segið: Takið upp tólf steina hér úr Jórdan miðri, á þeim stað, þar sem prestarnir stóðu kyrrir, og berið þá yfir um með yður og setjið þá niður þar sem þér hafið náttstað í nótt.'
4 Þá kallaði Jósúa tólf menn, sem hann kvaddi til af Ísraelsmönnum, einn mann af ættkvísl hverri.
5 Og Jósúa sagði við þá: 'Farið fyrir örk Drottins, Guðs yðar, út í Jórdan miðja, og taki hver yðar einn stein sér á herðar, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna.
6 Skal þetta vera tákn meðal yðar. Þegar synir yðar spyrja á síðan og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`
7 þá skuluð þér segja við þá: ,Það, að vatnið í Jórdan stöðvaðist fyrir sáttmálsörk Drottins, þá er hún fór yfir Jórdan. Vatnið í Jórdan stöðvaðist, og þessir steinar skulu vera Ísraelsmönnum til minningar ævinlega.'`
8 Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Jósúa bauð, og tóku tólf steina upp úr Jórdan miðri, eins og Drottinn hafði lagt fyrir Jósúa, eftir tölu ættkvísla Ísraelsmanna, og báru þá yfir um með sér, þangað er þeir höfðu náttstað, og settu þá þar niður.
9 Og Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag.
10 En prestarnir, sem örkina báru, stóðu í Jórdan miðri, uns öllu því var lokið, sem Drottinn hafði boðið Jósúa að segja lýðnum samkvæmt öllu því, sem Móse hafði boðið Jósúa. Og lýðurinn flýtti sér að fara yfir um.
11 Og er allur lýðurinn var kominn yfir um, þá fór og örk Drottins yfir um og prestarnir, sem fóru fyrir lýðnum.
12 Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse fóru hertygjaðir fyrir Ísraelsmönnum, eins og Móse hafði fyrir þá lagt.
13 Um fjörutíu þúsundir vígbúinna manna að tölu héldu þeir yfir á Jeríkóvöllu fyrir augliti Drottins til hernaðar.
14 Á þeim degi miklaði Drottinn Jósúa í augsýn alls Ísraels, og þeir óttuðust hann alla ævi hans, eins og þeir höfðu óttast Móse.
15 Drottinn sagði við Jósúa:
16 'Bjóð þú prestunum, sem bera sáttmálsörkina, að stíga upp úr Jórdan.'
17 Bauð Jósúa þá prestunum og mælti: 'Stígið upp úr Jórdan!'
18 Og jafnskjótt sem prestarnir, er báru sáttmálsörk Drottins, voru komnir upp úr Jórdan og þeir höfðu stigið fótum á þurrt land, féll vatnið í Jórdan aftur í farveg sinn, og hún flóði sem áður yfir alla bakka.
19 Lýðurinn kom upp úr Jórdan á tíunda degi hins fyrsta mánaðar og setti búðir sínar í Gilgal, við austurtakmörkin á Jeríkó.
20 Og steinana tólf, er þeir höfðu tekið upp úr Jórdan, reisti Jósúa í Gilgal.
21 Mælti hann þá til Ísraelsmanna á þessa leið: 'Þegar synir yðar á síðan spyrja feður sína og segja: ,Hvað eiga steinar þessir að jarteina?`
22 þá skuluð þér gjöra það kunnugt og segja: ,Ísrael gekk á þurru yfir ána Jórdan,
23 með því að Drottinn Guð yðar þurrkaði vatnið í Jórdan fyrir yður, þar til er þér voruð komnir yfir um, eins og Drottinn Guð yðar gjörði við Sefhafið, er hann þurrkaði það fyrir oss, þar til er vér vorum komnir yfir um,
24 til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd Drottins er sterk, svo að þær óttuðust Drottin Guð yðar alla daga.'`