Sálmarnir. Chapter 81

1 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.
2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.
3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.
4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.
6 Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:
7 'Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.
8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]
9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!
10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.
11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.
13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.
14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,
15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.
17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum.'