Sálmarnir. Chapter 94

1 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: 'Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því.'
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: 'Mér skriðnar fótur,' þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.